Fara yfir á efnisvæði

Staða ferðamanna vegna rekstrarstöðvunar flugfélaga

28.03.2019

Réttarstaða flugfarþega er ólík eftir því hvort flugið er hluti af pakkaferð eða hvort keyptur hefur verið stakur flugmiði.
Um sölu pakkaferða gilda lög um um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018. Neytendastofu er falið eftirlit með lögunum að öðru leyti en því sem snýr að tryggingaskyldu. Hér er stutt umfjöllun um réttarstöðu þeirra ferðamanna sem keypt hafa pakkaferð.

Ábyrgð smásala og skipuleggjanda pakkaferðar

Skipuleggjandi og smásali pakkaferðar bera sameiginlega ábyrgð á að pakkaferð sé í samræmi við samning. Það þýðir m.a. að þeir bera ábyrgð á að koma ferðamönnum á áfangastað og til baka aftur. Þeim sem keypt hafa pakkaferð eða eru nú þegar í pakkaferð, og flughluti ferðarinnar er með flugfélagi sem stöðvar rekstur, ber að snúa sér til þeirra varðandi frekari upplýsingar.
Sé pakkaferð hafin þegar flugfélag, sem aðeins sér um flughluta pakkaferðar, verður gjaldþrota ber skipuleggjanda og smásala skylda til að útvega ferðamönnum annað flug til að koma þeim á áfangastað eða til baka.
Ef pakkaferð er ekki hafin og skipuleggjanda og smásala er ófært að uppfylla skyldur sínar t.d. vegna rekstrarstöðvunar flugfélags ber að gera viðeigandi ráðstafanir:
o Breyta pakkaferðarsamningi ef samningur heimilar slíkar breytingar, eftir atvikum gegn afslætti á verði ferðarinnar. Ferðamenn eiga val um að samþykkja breytingar eða hætta við ferð gegn fullri endurgreiðslu.
o Aflýsa ferð gegn fullri endurgreiðslu.

Skipuleggjandi og smásali verða að tilkynna viðskiptavinum sínum um ákvörðun sína með góðum fyrirvara. Bregðist þeir ekki við aðstæðum með fullnægjandi hætti er um vanefnd að ræða af þeirra hálfu og ferðamaður getur átt rétt til skaðabóta.

Tryggingar vegna sölu pakkaferða

Sala pakkaferða er tryggingarskyld. Seljanda pakkaferða ber því að hafa tryggingu vegna sölu þeirra komi til gjaldþrots hans. Tryggingunni er ætlað að endurgreiða greiðslur sem greiddar hafa verið fyrir pakkaferð sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning og til heimflutnings farþega sé farþegaflutningur hluti pakkaferðar, komi til gjaldþrots seljandans.
Tryggingin tekur aðeins til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar tryggingartakans.
Þeir sem keypt hafa pakkaferð beint af flugfélagi sem stöðvar rekstur, eða eru nú þegar í pakkaferð sem keypt er af félaginu, geta haft samband við Ferðamálastofu í gegnum netfangið mail@ferdamalastofa.is eða netspjall stofnunarinnar.

Hvert skal leita?

Ferðamenn sem keypt hafa pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun og óska nánari upplýsinga um réttindi sín vegna breytingar eða aflýsingar ferðar geta leitað nánari upplýsinga hjá Neytendastofu. Nálgast má upplýsingar hér á vef stofnunarinnar.
Ferðamenn sem keypt hafa pakkaferð eða samtengda ferðatilhögun af félagi sem er í rekstrarstöðvun og leita upplýsinga um rétt til endurgreiðslu úr tryggingum félagsins geta leita til Ferðamálastofu. Nálgast má upplýsingar á vef stofnunarinnar, www.ferdamalastofa.is
Ferðamenn sem keypt hafa staka flugferð geta leitað nánari upplýsinga um réttindi sín hjá Samgöngustofu. Nálgast má upplýsingar á vef stofnunarinnar, www.samgongustofa.is
Þeir sem keypta hafa flugmiða af flugfélagi með debet- eða kreditkorti er bent á að hafa samband við kortafyrirtækið sitt. Einnig geta þeir gert kröfu í þrotabú viðkomandi flugfélags.

TIL BAKA