Vaxtaendurskoðunarákvæði ófullnægjandi
Neytendastofu barst erindi vegna skilmála fasteignaláns sem tekið var árið 2005 með vaxtaendurskoðunarákvæði frá Frjálsa fjárfestingarbankanum, nú Arion banka. Kvörtunin beindist að Arion banka og var tvíþætt. Annars vegar var kvartað yfir upplýsingagjöf þegar lánið var tekið því að í greiðsluáætlun og útreikningum hafi ekki verið tekið tillit til verðbóta. Hins vegar að í skilmálum um vaxtaendurskoðun kæmi ekki fram við hvaða aðstæður vextir gætu breyst.
Lánið var veitt í tíð eldri laga um neytendalán og því komu ákvæði þeirra til skoðunar í málinu.
Niðurstaða Neytendastofu vegna fyrri kvörtunarinnar var sú að lánveitanda bar ekki að taka tillit til verðbóta í greiðsluáætlun og útreikningum lánsins samkvæmt lögunum. Hvað síðari kvörtunina varðaði var niðurstaðan sú að skilmálar um vaxtaendurskoðun væru ófullnægjandi þar sem vísun til vaxta á nýjum sambærilegum lánum telst ekki fullnægjandi upplýsingar um aðstæður sem vaxtabreyting byggir á.Því bryti skilmálinn gegn ákvæðum laganna.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.