Hættulegar svefnvöggur eða svefnstólar á markaði
Neytendastofa vill vekja athygli á hættulegum vöggum fyrir kornabörn. Að minnsta kosti 50 börn hafa látist í þessum vöggum eða stólum. Nýlega innkallaði Mattel, framleiðandi Fisher Price, allar vöggur af tegundinni Rock‘n Play. Þrátt fyrir að Fisher-Price hafi innkallað Rock‘n Play vögguna þá eru á markaðnum vörur frá öðrum framleiðendum sem fela í sér svipaða hættu.
Samkvæmt American Academy of Pediatrics (AAP) þá eru þessar svokölluðu svefnvöggur hannaðar þannig að ungbarnið sefur í halla frá 10 gráðum til 30 gráður. Þegar þessi halli er til staðar aukast líkur á að það þrengi að öndunarvegi hjá kornabarni og hætta er á köfnun. Einnig er hætta á að vaggan velti þegar barnið nær að snúa sér. Börn eiga að sofa á sléttu yfirborði sem er ekki of mjúkt.
Neytendastofa hvetur foreldra og forráðamenn að gæta ávallt vel að svefnumhverfi barna.