Fara yfir á efnisvæði

Kostnaður lána og upplýsingagjöf Ecommerce 2020

26.08.2019

Neytendastofa tók til skoðunar neytendalán Ecommerce 2020, sem býður íslendingum lán frá 1909, Hraðpeningum, Kredia, Múla og Smálán. Skoðað var hvort kostnaður lána frá félaginu bryti gegn hámarki á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og hvort upplýsingar í stöðluðu eyðublaði og lánssamningi væru í samræmi við kröfur laga.

Fyrirtækið er í Danmörku og því komi til álita í málinu hvort íslensk eða dönsk lög eigi við um samningana. Niðurstaða Neytendastofu er sú að ákvæði laga um lagaskil á sviði samningaréttar sem fjalla um neytendasamninga geti átt við og því beri að fara að íslenskum lögum.

Eftir að gagnaöflun Neytendastofu hófst gerði Ecommerce 2020 breytingar á lánafyrirkomulagi sínu og lækkaði kostnað við lántöku. Fyrir breytingu var árleg hlutfallstala kostnaðar af lánunum á bilinu 3.444,8%-13.298,1% eftir lánstíma og lánsfjárhæð. Eftir breytingu er tekinn kostnaður sem gefur árlega hlutfallstölu kostnaðar um 53% og þess gætt að virt sé hámark laga um neytendalán sem er 50% auk stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Í ákvörðuninni er um það fjallað að félagið hafi brotið gegn lögum um neytendalán áður en framkvæmdinni var breytt.

Við meðferð málsins gerði Ecommerce 2020 nokkrar umbætur á stöðluðu eyðublaði og lánssamningi í tilefni athugasemda Neytendastofu. Félagið féllst ekki á allar athugasemdir stofnunarinnar og gerði því ekki breytingar til samræmis við þær. Snúa þær athugasemdir fyrst og fremst að upplýsingum um eftirlitsstjórnvald og úrskurðaraðila.

Með ákvörðuninni er Ecommerce 2020 gert skylt að breyta stöðluðu eyðublaði og lánssamningi til samræmis við athugasemdir Neytendastofu.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA