Forstjórar norrænna neytendaeftirlita ákveða nánara samstarf
Samstarf neytendaeftirlita á Norðurlöndunum er til þess fallið að styrkja mjög eftirlit, svo sem varðandi villandi fullyrðingar fyrirtækja um sjálfbærni að umhverfisáhrif sem ekki eiga við rök að styðjast. Einnig verður lögð áhersla á eftirlit með neytendalánum og duldum auglýsingum samkvæmt niðurstöðu af fundi forstjóra norrænna neytendaeftirlita sem fram fór í Kaupmannahöfn. Fundinn sótti Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu.
Löggjöf á sviði neytendaverndar er í grundvallaratriðum eins á öllum Norðurlöndunum. Norræn neytendaeftirlit standa því öll frammi fyrir samskonar áskorunum varðandi eftirlit með óréttmætum og villandi viðskiptaháttum. Það er því mikils virði að norrænu neytendaeftirlitin hafi gott tengslanet sem eykur samræmi við túlkun og framkvæmd á lögum sem fyrirtækjum ber að fara eftir innanlands og í viðskiptum sínum yfir landmæri norrænu ríkjanna.
Ljóst er að fyrirtæki nota tölvutækni og persónuupplýsingar sem leggja tæknilegan grunn að nýjum viðskipstamódelum gagnvart neytendum. Öll norræn neytendaeftirlit þurfa nú að beina sjónum að breyttum viðskiptaháttum margra fyrirtækja þar sem markaðssetning verður sífellt tæknilegri. Ákveðið var að stofna sameiginlegan vinnuhóp sem mun afla upplýsinga um slíka starfshætti og vinna sameiginlega að aðgerðum gegn slíkum brotum.
Á fundinum ræddu forstjórarnir einnig um að í vaxandi mæli nota fyrirtæki nú ýmis konar grænar auglýsingar og fullyrðingar um sjálfbærni þegar þau markaðssetja vörur og þjónustu. Þetta gerist um leið og neytendavitund og áhyggjur á sviði umhverfismála fara vaxandi. Norræn neytendaeftirlit munu á næstu árum leggja áherslu á að slíkar fullyrðingar verða að vera sannar og trúverðugar.
Á fundinum kom einnig fram að öll norrænu neytendaeftirlitin eiga sameiginlegt að eftirlit með neytendalánum og duldum auglýsingum sæta forgangi, þ.m.t. Færeyjum og Grænlandi sem nú tók þátt í fundinum í fyrsta sinn.