Fara yfir á efnisvæði

Kvörðun rennimála hafin á ný

25.10.2019

Algengt mælitæki sem finna má á flestum verkstæðum og mörgum vinnustöðum eru svokölluð rennimál, en það eru handhæg og nokkuð nákvæm tæki til að mæla lengd. Tvær tegundir slíkra mælitækja eru til, annars vegar með rafeindabúnaði sem auðvelt er að lesa af og hins vegar gamaldags rennimál með kvarða. Eigendur slíkra tækja vita kannski ekki allir að hægt er að fá slík tæki kvörðuð hérlendis, en þegar tæki er kvarðað fær eigandi vottorð sem segir til um skekkju mælitækisins.

Hjá kvörðunarþjónustu Neytendastofu hefur lengi boðið upp á kvarðanir rennimála, beggja tegunda, allt að 300 mm. Til þess að tryggja nákvæmni mælinga, sem og rekjanleika til viðurkenndra landsmæligrunna, þarf reglulega að senda kvörðunarbúnaðinn úr landi og láta kvarða hann hjá faggiltri kvörðunarstofu. Þannig er reynt að tryggja að nákvæmni þeirra vottorða sem gefin eru út hérlendis sé hafið yfir vafa.

Síðustu vikur hefur kvörðunarbúnaður Neytendastofu verið í reglulegri kvörðun í Hollandi, en hefur nú verið endurheimtur og geta því kvarðanir rennimála hafist á ný. Á myndinni má einmitt sjá 300 mm rennimál sem beið kvörðunar. Nánari upplýsingar um kvörðun rennimála, sem og annarra tækja, fást hjá starfsfólki Neytendastofu.

TIL BAKA