Landsréttur staðfestir ákvörðun Neytendastofu.
Neytendastofa tók ákvörðun gagnvart E-content í nóvember árið 2016 vegna kostnaðar félagsins af lánum sem það veitti neytendum. Með ákvörðuninni komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að E-content ætti að fara með kaupverð rafbóka eins og kostnað þegar reiknaður væri út heildarlántökukostnaður og árleg hlutfallstala kostnaðar. Í ákvörðuninni var einnig talið að E-content hafi ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni. Neytendastofa lagði 2.400.000 kr. stjórnvaldssekt á félagið fyrir framangreind brot á lögum um neytendalán.
Áfrýjunarnefnd neytendamála staðfesti ákvörðunina með úrskurði sínum í mars árið 2017.
E-content stefndi Neytendastofu til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar fyrir héraðsdómi Reykjavíkur sem sýknaði Neytendastofu af kröfu E-content í febrúar sl.
Félagið áfrýjaði dómi héraðsdóms til Landsréttar sem hefur nú staðfest niðurstöðu Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála að því er varðar útreikning heildarlántökukostnaðar og árlega hlutfallstölu kostnaðar. Ennfremur staðfesti Landsréttur niðurstöðu Neytendastofu og áfrýjunarnefndar neytendamála varðandi ófullnægjandi upplýsingagjöf E-content að undanskildum q. lið 2. mgr. 12. gr. laganna. Þá staðfesti Landsréttur stjórnvaldssekt sem lögð var á E-content.
Lesa má dóm Landsréttar hér. https://www.landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=83660642-7dac-495c-be24-1847241f6db1