Ný lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála
Lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála tóku gildi 1 janúar 2020. Neytendum er nú með lögum tryggt úrræði til þess að fá aðgang að skilvirkri og faglegri málsmeðferð utan dómsmála komi upp ágreiningur í viðskiptum þeirra við seljendur á vörum eða þjónustu.
Seljendur skulu veita neytendum upplýsingar um úrskurðaraðila sem þeir geta leitað til ef ekki tekst að semja um úrbætur vegna vanefnda seljanda og hafnað kröfum neytanda. Netmarkaðir sem gera sölu - eða þjónustusamninga á netinu skulu hafa tengil við rafræna vettvang hlutaðeigandi úrskurðaraðila sem getur leyst úr deilumálum í viðskiptum seljanda og neytenda. Framangreind rétttindi eru tryggð neytendum í öllum viðskiptum á innri markaðnum í Evrópu, þ.e. í 28 aðildarríkjum ESB svo og 3 EES ríkjum (Noregi, Liechtenstein og Íslandi). Í viðskiptum jafnt innan sem yfir landamæri er mikilvægt að lagaleg réttindi neytenda séu virt í framkvæmd. Ný lög um úrskurðaraðila á sviði neytendamála eru hluti af þeirri sameiginlegu EES-löggjöf sem stuðlar að neytendur geti treyst því að ef eitthvað fer úrskeiðis er þeir kaupa vörur eða þjónustu á EES svæðinu þá geti þeir án mikils kostnaðar leitað réttar síns hjá hlutaðeigandi úrskurðaraðila utan dómstóla. Á grundvelli laganna tekur jafnframt til starfa kærunefnd um vöru-og þjónustukaup og kærunefnd lausfjár-og þjónustukaupa lýkur þar með störfum samkvæmt eldri reglum og fær jafnframt víðtækara hlutverk. Kærunefndin er sjálfstæð en hefur aðsetur hjá Neytendastofu.
Nánar vísast hér til laga um úrskurðaraðila á sviði neytendamála sjá hér
https://www.althingi.is/altext/stjt/2019.081.html og reglugerðar um kærunefnd vöru-og þjónustukaupa
https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=8ed3fc50-3331-4af0-a82e-4748b3a070b7