Skilmálabreytingar Reebok Fitness óréttmætar
Neytendastofu bárust kvartanir yfir skilmálabreytingum sem Reebok Fitness gerði þegar líkamsræktarstöðvar þurftu að loka tímabundið vegna samkomutakmarkana. Breytingin fólst í því að í stað þess að segja upp ótímabundinni áskrift rafrænt á vefsíðu Reebok Fitness, eins og áður hafði verið, þurftu neytendur að mæta á skrifstofu félagsins á tilteknum tíma dags.
Í ákvörðuninni fjallar Neytendastofa um að stofnunin telji skilmálabreytinguna takmarka möguleika neytenda til að segja upp samningi og fela í sér töluverða breytingu á eðli samningssambandsins. Auk þess hafi breytingin verið gerð einhliða og án tilkynningar og því gátu neytendur ekki gripið til neinna ráðstafana ef þeir vildu ekki sætta sig við breytinguna. Því taldi Neytendastofa skilmálabreytingu Reebok Fitness fela í sér óréttmæta viðskiptahætti .
Þar sem Neytendastofu er ekki falið að leysa úr einkaréttarlegum ágreiningi getur stofnunin ekki tekið afstöðu til þess hvaða áhrif ákvörðunin hefur á þá neytendur sem breytingin tók til. Telji neytendur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinganna geta þeir leitað úrlausnar hjá Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa (www.kvth.is) náist ekki sátt við Reebok Fitness um úrlausn málsins.