Fara yfir á efnisvæði

Neytendastofa tekur þátt í mælifræðisamstarfi ríkja á norðurslóðum.

16.09.2020

Fréttamynd

Neytendastofa tekur nú þátt í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltslanda í mælifræði. Samstarfshópurinn heitir EMN (European Metrology Network) og er hlutverk hans að efla samstarf á milli landanna með því að miðla hugmyndum og þekkingu.

Neytendastofa fagnar þessu nýja samstarfi og telur að með þátttöku Íslands í verkefninu opnist einstakt tækifæri að aðgengi að þekkingu á sviði mælifræði.

Stofnunin verður í samstarfi og í tengingu við mun stærri mælifræðistofnanir á norðurslóðum. Mikill styrkur er fólginn í greiðara aðgengi sérfræðinga Neytendastofu að sérfræðiþekkingu þessara systurstofnana. Eitt af því sem EMN vill leggja áherslu á er að saman munu þjóðirnar efla kennslu og upplýsingaflæði um það hvað mælifræði sé og hverjir ættu að nýta sér þjónustu hennar. Einnig er vonast til að sýnileiki mælifræðinnar aukist og að almenningur og stjórnvöld geri sér betur grein fyrir mikilvægi hennar.

Neytendastofa hefur það lögbundna hlutverk að afla og viðhalda rekjanlegum mæligrunnum á Íslandi þ.m.t. íslenska kílógrammið og kvarða mælitæki. Til að mælingar séu sambærilegar og jafngildar milli landa þurfa allir að nota sömu viðmið og eru þau viðmið nefnd mæligrunnar (e. measurement standards). Einnig fer fram markaðseftirlit með mælitækjum og eftirlit með löggildingu mælitækja.

Sviðið er víðtækt og látum við myndband fylgja fréttinni. https://www.youtube.com/watch?v=vRnT8hIxjqk&feature=emb_title

Stofnunin hefur um árabil verið aðili að samtökum landsmælifræðistofnana í Evrópu, EURAMET (European Association of National Metrology Institutes) fyrir hönd Íslands og tekur þátt í samstarfi á þeirra vegum. Meðal mælifræðistofnana sem þátt taka í verkefninu hefur byggst upp gríðarleg þekking á sviði mælifræði og er misjafnt eftir löndum hvar þekkingin er mest. Mörg þeirra úrlausnarefna sem upp koma hér á landi hafa áður komið upp annars staðar og verður styrkur fyrir Neytendastofu að geta sótt í þekkingu stærri stofnana og sérfræðinga þeirra. Tengslanet sérfræðinga í mælifræði mun stækka til muna við þátttökuna og framboð af þjálfun og kennslu sömuleiðis.

TIL BAKA