Auglýsingar Poulsen bannaðar
Neytendastofu bárust ábendingar um viðskiptahætti fyrirtækisins Poulsen. Annars vegar beindust ábendingarnar að tilboðsbæklingi með yfirskriftinni „AFMÆLISTILBOГ. Komu þar fram þríþættar athugasemdir; í fyrsta lagi að verðlækkun hafi varað lengur en í sex vikur, í öðru lagi að fyrra verð væri ekki birt í bæklingnum og í þriðja lagi að þrátt fyrir fyrirvara um takmarkað magn væri ekki tilgreint hversu mörg eintök væru í boði á lækkuðu verði. Hins vegar beindust ábendingarnar að auglýsingum félagsins á fríum rúðuþurrkublöðum með hverri framrúðuísetningu.
Í svörum Poulsen var ekki hreyft mótmælum við athugasemdum Neytendastofu um framsetningu tilboða í tilboðsbæklingnum og því heitið að breyta síðari tilboðum til samræmis við lög og reglur. Hvað auglýsingu á fríum rúðuþurrkublöðum varðaði, vísaði félagið til þess að tilboðinu hefði verið komið á þar sem bílaeigendur ættu það til að skipta sjaldan um rúðuþurrkublöð. Jafnframt var vísað til þess að tryggingarfélög tjónþola væru að endingu viðskiptavinir félagsins, ekki sjálfir tjónþolar.
Niðurstaða Neytendastofu var sú að viðskiptahættir Poulsen hafi verið villandi gagnvart neytendum og til þess fallnir að hafa áhrif á fjárhagslega hegðun þeirra. Benti stofnunin m.a á að það að auglýsingu um fríar rúðuþurrkur sé beint að neytendum og tjónþoli þyrfti að greiða sjálfsábyrgð vegna tjóns þegar skipt sé um framrúðu. Notkun orðsins frítt í auglýsingunni feli í sér rangar upplýsingar um verð þjónustu og sé líklegt til að valda því að neytandi taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.