Fara yfir á efnisvæði

34 nýir vigtarmenn

30.11.2020

Námskeiðum vigtarmanna, almennt grunnnámskeið og endurmenntunarnámskeið, sem frestað hafði verið í október voru haldin í nóvember. Neytendastofa sá til þess að farið var eftir sóttvarnaraðgerðum. Einungis sex af 34 þátttakendum á almenna grunnnámskeiðinu sátu í kennslustofu Neytendastofu í Reykjavík en námskeiðinu síðan streymt á ellefu aðra staði víðsvegar um landið.

Með þessu móti var hægt að halda námskeiðin og viðhafa um leið nauðsynlegar sóttvarnir. Notkun fjarfundarbúnaðar á námskeiðum Neytendastofu hefur tíðkast í nokkur ár og sífellt stærri hluti þátttakenda sem hafa notfært sér þessa tækni. Þátttakendum er þá beint inn á fræðslumiðstöðvar í heimabyggð en þar er oftast að finna góðan tæknibúnað og starfsfólk með þekkingu til að halda utan um námskeið. Hluti leiðbeinenda námskeiðanna tengdist einnig námskeiðunum í gegnum fjarfund, einn frá Höfn og annar frá Vestmannaeyjum.

Á almenna grunnnámskeiðinu er farið yfir lög nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og reglur og reglugerðir sem byggðar eru á þeim lögum og snúa að starfi vigtarmanna. Áhersla er einnig lögð á lög og reglugerðir um efni sem tengist vigtun sjávarafla. En eitt af mikilvægustu trúnaðarstörfum innan sjávarútvegsins er starf vigtarmanna. Þeir bera ábyrgð á því að vigtun á sjávarafla fari fram með lögmætum hætti og gefa út vottorð þar um, en þetta er lykilatriði í stjórnun fiskveiða.

Árlega sækja um 100 manns námskeið til að öðlast réttindi sem löggiltir vigtarmenn. Námskeiðin hafa verið haldin þrisvar á ári og verður næsta löggildingarnámskeið haldið í janúar 2021 að öllu óbreyttu. Til að viðhalda réttindunum þá þarf að sækja endurmenntunarnámskeið á 10 ára fresti.

Ef þú hefur áhuga á að sækja námskeið er hægt að fá upplýsingar um inntökuskilyrði á námskeiðin og fleira er þeim tengist eins og tímasetningar næsta námskeiðs og þar er einnig hægt að innrita sig á námskeið. Þar má líka finna og hala niður hluta af námsefninu sem farið er yfir.

TIL BAKA