Fara yfir á efnisvæði

Samfélagsgrímur eiga ekki að vera CE-merktar

03.12.2020

FréttamyndNeytendastofa vill vekja athygli á að andlitsgrímur eru mismunandi eftir tegundum. Þær sem eru algengastar eru svokallaðar samfélagsgrímur. Andlitsgrímur sem eru búnar til úr textíl eins og bómull eða pólýester eru dæmi um samfélagsgrímur. Slíkar grímur uppfylla ekki kröfur um öryggi til samræmis við CE merktar grímur þó svo að um marglaga grímur sé að ræða.

Einnig vill Neytendastofa vekja athygli á að stofnunin hefur enn ekki fengið nein gögn sem hafa sýnt fram á að grímur með silfurþráðum, nanóþráðum eða öðrum álíka efnum séu betri vörn gegn Covid-19 heldur en CE merktar persónuhlífar þ.e. PPE grímur. Ef fólk er í áhættuhópum þá hvetjum við þá einstaklinga til að nota CE merkta PPE grímur. Því miður eru þær af skornum skammti og er þeim því forgangsraðað til heilbrigðisstarfsmanna. Vegna þess hafa samfélagsgrímur verið samþykktar og til eru leiðbeinandi reglur um hvaða kröfur þær eiga að uppfylla. Hægt er að nálgast þær hér: https://www.eurofins.com/consumer-product-testing/covid-19-product-testing/cwa-cen-mask-testing/

Þá eru einnig til samfélagsgrímur sem líta út eins CE merktar grímur, bæði persónuhlífar (PPE) og lækningagrímur. Þær eiga að vera merktar sem samfélagsgrímur þannig að neytendum sé ljóst um hverskonar grímur sé að ræða. Því vill Neytendastofa vara fólk við að það er ekki nægilegt að vera með samfélagsgrímu í nálægð einstaklings sem hugsanlega gæti verið með einkenni Covid-19. Hvetjum við því fólk einnig til að þvo hendur vel, spritta og halda 2 metra fjarlægð.

Neytendastofa bendir á að hægt er að finna hættulegar vörur, þ.m.t. grímur sem tilkynntar hafa verið innan Evrópska efnahagsvæðisins í tilkynningarkerfinu Rapex. 
Neytendastofa hefur haft til meðferðar tugi mála er varða andlitsgrímur. Vill stofnunin þakka seljendum og dreifingaraðilum jákvætt viðhorf þeirra og skjótum viðbrögðum við að leiðrétta merkingar eða taka úr sölu og innkalla hættulegar andlitsgrímur.

TIL BAKA