Fara yfir á efnisvæði

Reglur um verðmerkingar og verðsamanburð á orkugjöfum fyrir bifreiðar

07.12.2020

Neytendastofa hefur birt nýjar reglur um verðmerkingar og verðsamanburð á orkugjöfum fyrir bifreiðar. Reglurnar koma í stað eldri reglna um verðmerkingar á eldsneyti fyrir bifreiðar auk þess sem þær innleiða tilskipun 2014/94/ESB og reglugerð (ESB) 2018/732 þar sem fjallað er um verðsamanburð og merkingar.

Hvað verðmerkingar varðar eru helstu breytingar frá eldri reglum að þær nýju taka mið af nýjum orkugjöfum fyrir bifreiðar og því er ekki notast við hugtakið eldsneyti. Skylda til verðmerkinga á sölustað er hin sama og verið hefur.

Samkvæmt nýju reglunum ber þeim sölustöðum þar sem selt er bensín, díselolía og að minnsta kosti ein tegund af óhefðbundnum orkugjafa (rafmagn, metan eða vetni) að birta verðsamanburð. Í samanburðinum er borið saman meðalverð mismunandi orkugjafa fyrir hverja ekna 100 km. Orkusetur birtir samanburð sem sölustaðir geta notast við.

Þá er í reglunum annars vegar kveðið á um skyldu seljenda til að merkja áfyllingar- og hleðslustöðvar sem og stúta með viðeigandi hætti sem gefur til kynna hvers konar orkugjafa þær hafa. Hins vegar er kveðið á um skyldu framleiðenda, seljenda og þeirra sem gera breytingar á orkugjafa bifreiða til að merkja áfyllingar- eða hleðslulok þannig að skýrt sé hvaða orkugjafi henti bifreiðinni. Þær upplýsingar eiga jafnframt að vera í handbók bifreiðarinnar.

Reglurnar má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA