Sameiginlegt átak neytendastofnanna í Evrópu með öryggi barnaleikfanga
Neytendastofa tók þátt í evrópsku samstarfsverkefni á árinu þar sem skoðuð voru um 7500 leikföng sem eru kreist (e. squeeze toys), fingramálning og blöðrur. Markmiðið verkefnisins var að skoða hvort að það væru leikföng til sölu sem innihéldu of hátt hlutfall nítrósamína eða efna sem geta umbreyst í nítrósamínur en slík efni eru talin mjög krabbameinsvaldandi. Þá voru merkingar á umbúðum varanna athugaðar.
Fulltrúi Neytendastofu skoðaði um 530 leikföng og af þeim voru valin 20 til að skoða nánar. Til þess þurfti að senda 140 blöðrur, 19 kreistileikföng og 10 eintök af fingramálningu til prófunar á erlenda prófunarstofu. Ein tegund blaðra féll vegna þess að heildarmagn nítrósamína mældist of hátt. Í blöðrunum mældust alls fimm tegundir krabbameinsvaldandi nítrósamína en ein af þeim getur getur síast í gegnum húð og því er varasamt að blása í blöðrurnar eða snerta þær með höndum. Um var að ræða gular blöðrur frá Amscan sem seldar hafa verið í Partýbúðinni. Neytendastofa lét athuga fleiri liti frá sama framleiðanda og reyndust þær í lagi. Partýbúðin hefur þegar innkallað gulu „Premium Line – Yellow“ blöðrurnar frá Amscan.
Engin skaðleg efni fundust í kreistileikföngum eða fingramálningu. Niðurstöður sýndu að 60% leikfanganna voru ekki með réttar merkingar á umbúðum. Hafa allir innflutningsaðilar og verslanir þegar lagfært merkingar.
Það á enn eftir að koma í ljós hvort að fleiri vörur verði innkallaðar eða hætti í sölu þar sem niðurstöður er ekki komnar fyrir allar vörurnar sem sendar voru til prófunar frá hinum neytendastofunum.
Neytendastofa þakkar þeim verslunum sem tóku þátt í verkefninu með stofnuninni fyrir áhuga og góð viðbrögð við athugasemdum.
Ráð fyrir neytendur:
• Þegar leikföng eru keypt handa börnum er mikilvægt kaupa eingöngu leikföng sem eru CE-merkt.
• Á netinu er mikið til af fölsuðum leikföngum, eftirlíkingum og hættulegum leikföngum sem hafa verið innkölluð. Mikilvægt er því að kaupa eingöngu af vefsíðum sem neytendur þekkja og að þar komi greinilega fram við hvern er verslað. Auk þess er góð regla að athuga inn á safety gate hvort varan sem verið er að panta hafi verið innkölluð.
• Þegar blaðra er blásin upp ætti að notast við þar til gerða pumpu til að forðast hættu sem af blöðrum getur stafað. Blöðrur geta hrokkið ofan í þann sem blæs þær upp sem getur leitt til köfnunar.