Fara yfir á efnisvæði

Hættuleg pikkler leikfangaklifurgrind innkölluð

21.12.2020

FréttamyndNeytendastofa hefur fyrirskipað innköllun og bannað sölu- og afhendingu á leikfangaklifurgrind (pikkler) frá Sigurði Valgeirssyni. Við prófun á klifurgrindinni kom í ljós að leikfangið er ekki öruggt fyrir börn vegna hönnunargalla. Leikfangið felur í sér hengingarhættu þar sem börn geta fest höfuðið á milli rimla á klifurgrindinni, auk þess er grindin völt og getur við notkun oltið á hliðina. Leikfangið var ekki CE merkt né með aðrar viðeigandi merkingar eða leiðbeiningar. Þá var ekki hægt að sjá að klifurgrindin hefði verið prófuð til að athuga hvort að leikfangið uppfylli allar öryggiskröfur sem gerðar eru til leikfangaklifurgrinda.

Neytendastofa hvetur þá sem eiga umrædda leikfangaklifurgrind að skila henni til seljanda. Málið kom upp við eftirlit Neytendastofu vegna þátttöku í samstarfsverkefni með vörueftirlitsstjórnvöldum í Evrópu. Markmið verkefnisins var að kanna öryggi stærri leikfanga á íslenskum markaði og hvort þau stæðust viðeigandi lágmarkskröfur.

Neytendastofa vill ítreka að það má ekki selja leikföng nema að þau séu CE merkt. Merkið þýðir að varan hafi verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og stenst allar prófanir ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar séu til staðar má setja CE merkið á vöruna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA