Innköllun á bangsagalla vegna kyrkingahættu
Neytendastofa vill benda á innköllun Palmas ehf., rekstraraðila vefverslunarinnar ronjaverslun.is, á vörunni „Bangsagalli“ frá Baby Powder. Hættan felst í því að bönd í hettum eða í hálsmáli geta valdið hættu á kyrkingu. Er varan samansett af hettupeysu og buxum fyrir börn.
Af öryggisástæðum vill verslunin benda þeim sem keypt hafa umræddar peysu að fjarlægja böndin úr peysunum eða skila peysunni í verslunina. Ástæða innköllunarinnar er sú að böndin í hettunum eru ekki í samræmi við lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Ekki er heimilt að hafa bönd eða reimar í hálsmáli fatnaðar ætlað börnum yngri en 7 ára (upp í 1,34 m hæð).
Neytendastofa hvetur þá sem keypt hafa ofangreindar flíkur að snúa sér Palmas ehf. eða fjarlægja böndin úr hettunum. Jafnframt bíður verslunin viðskiptavinum upp á að saumað verði fyrir göt sem verða eftir ef böndin eru fjarlægð.