Fara yfir á efnisvæði

Viðskiptahættir Borgunar ekki taldir villandi

28.12.2020

Neytendastofu barst kvörtun frá Valitor vegna rangra og villandi staðhæfinga í tilkynningu Borgunar sem send var viðskiptavinum. Í tilkynningunni kom fram að hætt yrði að taka á móti nokkrum tegundum greiðslukorta með tilteknum posa frá Valitor og því þyrfti að skipta um posa til þess að tryggja áframhaldandi móttöku kortanna. Þá kvartaði Valitor einnig yfir röngum og villandi fullyrðingum í auglýsingu Borgunar á Já.is þar sem fullyrt var að Borgun væri eina fyrirtækið á landinu sem bjóði upp á heildarlausn í greiðslumiðlun.

Í ákvörðuninni reyndi m.a. á það hvort tilkynning Borgunar til viðskiptavina sinna gæti talist auglýsing. Neytendastofu komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða viðskiptahætti sem falla undir eftirlit stofnunarinnar. Við ákvörðun í málinu leit Neytendastofa til þess að tilkynningin barst einungis núverandi viðskiptavinum félagsins og réttilega væri greint frá því að tiltekin þjónusta yrði ekki lengur í boði. Þá taldi Neytendastofa ekki hægt að gera þá kröfu að Borgun upplýsti viðskiptavini um þjónustu keppinauta sinna. Því taldi stofnunin að ekki væri um villandi viðskiptahætti að ræða.

Við meðferð málsins kom ekkert fram sem gaf til kynna að fullyrðingar Borgunar, um að það sé eina fyrirtækið á landinu sem bjóði upp á heildarlausn í greiðslumiðlun, hafi verið röng. Taldi Neytendastofa þessa auglýsingu því hvorki villandi né ranga.

Neytendastofa taldi því ekki ástæðu til aðgerða í málinu.

Lesa má ákvörðunina í heild sinni hér.

TIL BAKA