Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið NORDIC CAMPERS

30.12.2020

Neytendastofu barst kvörtun frá Nordic Campers AS og Nordic Campers ehf. þar sem kvartað var yfir notkun Nordic Car Rental ehf. á auðkenninu NORDIC CAMPERS. Í kvörtuninni er rakið að Nordic Campers telji notkun Nordic Car Rental á auðkenninu villandi, brjóta gegn vörumerkjarétti Nordic Campers og sé til þess fallin að neytendur ruglist á fyrirtækjunum. Nordic Car Rental hafnaði þessu og benti á að engin bílaleigustarfsemi færi fram af hálfu Nordic Campers hérlendis auk þess sem Nordic Car Rental ætti vörumerkjarétt tengdan auðkenninu NORDIC CAMPERS.

Neytendastofa taldi að líta yrði til þess að félögin bjóða sömu þjónustu. Þó Nordic Campers hafi ekki hafið starfsemi hér á Íslandi sé eðli þjónustunnar þannig að samningsgerð fer að miklu leyti fram yfir landamæri á Netinu. Líkindi auðkennanna séu að mati Neytendastofu veruleg og því hætta á að neytendur ruglist á fyrirtækjunum. Litið var til þess að Nordic Campers á skráð bæði orðmerki og myndmerki hjá Hugverkastofunni þó Nordic Car Rental hafi heitið Nordic Campers skráð sem hjáheiti hjá Samgöngustofu og eigi skráð nokkur lén þar sem heitið komi fyrir.

Niðurstaða Neytendastofu var sú að Nordic Campers ætti betri rétt til auðkennisins og þar sem hætta væri á að neytendur ruglist á fyrirtækjunum var Nordic Car Rental bönnuð notkun auðkennisins NORDIC CAMPERS í starfsemi sinni.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA