Fara yfir á efnisvæði

Villandi viðskiptahættir Bílainnflutnings frá Evrópu

08.01.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Toyota á Íslandi hf. vegna viðskiptahátta Bílainnflutnings frá Evrópu. Gerðar voru athugasemdir við auglýsingar um sölu á nýjum og óskráðum Toyota Land Cruiser bifreiðum með 5 ára verksmiðjuábyrgð. Í kvörtuninni kom fram að verksmiðjuábyrgð á Toyota bifreiðum væri aðeins 3 ár og að bifreiðarnar sem auglýstar væru til sölu væru skráðar erlendis áður en þær væru fluttar til Íslands. Því væru þær ekki nýjar þó ekki endilega væri búið að aka þeim.

Við meðferð málsins var viðurkennt af hálfu Bílainnflutnings frá Evrópu að auglýsingarnar hafi verið byggðar á röngum upplýsingum og að bifreiðarnar hafi einungis borið 3 ára verksmiðjuábyrgð en ekki 5 ára. Neytendastofa taldi að það væri villandi að auglýsa bifreiðarnar sem óskráðar þar sem þær hafi verið skráðar erlendis áður en þær voru innfluttar. Neytendastofa taldi hins vegar ekki villandi gagnvart neytendum að segja bifreiðarnar nýjar þrátt fyrir að þær hafi áður verið skráðar erlendis.

Með ákvörðuninni var birting auglýsinga Bílainnflutnings frá Evrópu bönnuð.

Ákvörðunin snýr eingöngu að markaðssetningu Bílainnflutnings frá Evrópu en ekki skilmálum einstaka samninga við neytendur sem keypt hafa bifreiðar af félaginu. Neytendastofa vill því vekja athygli neytenda á því að komi upp ágreiningur um lengd ábyrgðartíma keyptrar bifreiðar vegna rangra upplýsinga í markaðssetningu Bílainnflutnings frá Evrópu geta neytendur leitað réttar síns t.d. með því að bera málið undir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa á vefsíðunni www.kvth.is.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA