Fara yfir á efnisvæði

Um helmingur „grænna“ fullyrðinga fyrirtækja órökstuddar

11.02.2021

Fréttamynd

Neytendastofa vill vekja athygli á fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um niðurstöður úr fyrstu samræmdu skimun á vefsíðum þar sem fram koma fullyrðingar um umhverfisvænar vörur og/eða þjónustu. Verkefnið var unnið í samstarfi við systurstofnanir Neytendastofu í Evrópu. Neytendastofa tók þátt í verkefninu líkt og stofnunin hefur gert undanfarin ár. Gerð var athugun á 344 fullyrðingum um umhverfisvænar vörur/þjónustu og tók það til ýmissa atvinnugreina, svo sem fataiðnaðar, snyrtivara og heimilistækja.

Niðurstaða verkefnisins var að í 42% tilvika voru fullyrðingarnar ýktar, villandi eða rangar og gætu hugsanlega talist ósanngjarnir viðskiptahættir samkvæmt reglum ESB. Slíkir viðskiptahættir, þekktir sem „grænþvottur“ eru að aukast en samkvæmt nýlegri könnun á neytendamarkaði (e. Consumer Market Monitoring Survey) töldu 78% neytenda umhverfisáhrif heimilistækja mjög eða nokkuð mikilvægan þátt við val á vöru og er því ljóst að neytendur leitast eftir að kaupa umhverfisvænar vörur.

Helstu niðurstöður verkefnisins voru eftirfarandi:

•   Neytendayfirvöld gerðu úttekt á 344 fullyrðingum um eiginleika vöru eða þjónustu er tekur til umhverfisverndar sem seld er á internetinu og mátu hvort þessar fullyrðingar væru nægilega skýrar og  áreiðanlegar. Við mat sitt byggðu yfirvöld á því hvaða upplýsingar voru aðgengilegar á vefsíðum fyrirtækja  og könnuðu sannleiksgildi þeirra.
•   Neytendayfirvöld gerðu athugun á aðgengi neytenda að upplýsingum sem fullyrðingar um umhverfisvænar vörur/þjónustu byggja á og hvernig þær upplýsingar voru settar fram.

Niðurstöður voru eftirfarandi:

 o    Fyrirtæki settu fullyrðingar sínar fram með afgerandi hætti og vísuðu m.a. til þess að vara væri „vistvæn“ eða að framleiðsla vörunnar væri „umhverfisvæn“. Í 1,4% tilvika voru fullyrðingar settar fram með vali á ákveðnum litum, myndum eða hljóðum.

o    Í 57,5% tilvika voru ekki lagðar fram nægjanlegar upplýsingar til að meta sannleiksgildi eða réttmæti  fullyrðinganna.

o    Í 37% tilvika fólu fullyrðingar í sér óljósar staðhæfingar um að vara væri „umhverfisvæn“, „vistvæn“  eða „sjálfbær“ og miðuðu fullyrðingarnar að því að telja neytendum trú um að varan eða söluaðili hennar hefði engin eða jákvæð áhrif á umhverfið.

o   Í 58% tilvika voru ekki veittar upplýsingar eða önnur gögn á aðgengilegar hátt til stuðnings fullyrðingum um umhverfisvænar vörur/þjónustu.

o   Á jákvæðum nótum að þá leiddi athugunin í ljós að í 76% tilvika voru fullyrðingar um umhverfisvænar vörur/þjónustu settar fram á skýru og einföldu máli.

•     Í 42% tilvika höfðu neytendayfirvöld ástæðu til að ætla að fullyrðing gæti verið röng eða villandi og því hugsanlega um óréttmæta viðskiptahætti að ræða.
•     Verkefnið leiddi í ljós að í 7 tilvikum voru settar fram fullyrðingar sem falla undir svokallaðan „svartan lista“ tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti, t.d. rangar fullyrðingar um að vara eða þjónusta hafi verið vottuð eða samþykkt af opinberum aðila eða einkafyrirtæki.

Sjá meðfylgjandi skýringarmynd (ofar) sem sýnir hlutfall þeirra atvinnugreina sem gerð var athugun á:

Í framhaldinu munu neytendayfirvöld í Evrópu hafa samband við hlutaðeigandi fyrirtæki og tryggja að úrbætur verði gerðar að því er lýtur að órökstuddum fullyrðingum um umhverfisvænar vörur eða þjónustu.

Neytendastofa tók þátt í umræddu samstarfi og gerði athugun á nokkrum fjölda vefsíðna hér á landi þar sem „grænar“ fullyrðingar koma fram. Niðurstaða Neytendastofu var að algengustu „grænu“ fullyrðingar íslenskra fyrirtækja eru „kolefnishlutleysi“ og „kolefnisjöfnun“. Fullyrðingarnar voru í flestum tilvikum settar fram með skýrum hætti en skortur var á að fullnægjandi upplýsingar, eða hvernig hægt væri að nálgast upplýsingar, til stuðnings fullyrðingunum, t.a.m. hvað varðar umhverfisvottanir o.fl.

Neytendastofa mun í framhaldinu taka ákvörðun um hvort athugun stofnunarinnar gefi tilefni til að taka málin til frekari meðferðar.

Lesa frá fréttatilkynninguna í heild sinni hér:

(https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_21_269)

TIL BAKA