Auðkennið BRÚIN
Neytendastofu barst kvörtun frá Hótel Grindavíkur ehf. þar sem kvartað var yfir notkun Alex Airport Hotel ehf. á auðkenninu BRÚIN. Í kvörtuninni var rakið að Hótel Grindavík hafi frá árinu 2011 notað auðkennið BRÚIN veitingahús sem heiti á veitingahúsi sínu og nú hafi Alex Airport Hotel tekið í notkun auðkennið BRÚIN fyrir veitingahús sitt sem sé staðsett í Marriott Cortyard hóteli fyrirtækisins í Keflavík. Taldi Hótel Grindavík að notkun Alex Airport Hotel á auðkenninu væri villandi, veitingastaðirnir á sama markaðssvæði og notkunin myndi leiða til þess að neytendur myndu ruglast á fyrirtækjunum. Alex Airport Hotel hafnaði þessu og benti á að fyrirtækið hafi skráð orð- og myndmerkið THE BRIDGE án athugsemda eða andmæla og að íslenska orðið brúin væri staðsett í vörumerki veitingastaðarins. Auðkenni Hótel Grindavíkur beri það með sér að vísað sé til brúar á skipi en í tilvísunum í veitingastað Alex sé hins vegar stuðst við nafnið The Bridge en ekki Brúin.
Neytendastofa taldi að líta yrði til að starfsemi beggja fyrirtækja væri sú sama og markhópur fyrirtækjanna sá sami. Þá væri markaðssvæði beggja fyrirtækja hið sama og fyrirtækin því keppinautar. Enn fremur væru auðkennin mjög lík þar sem um sama heitið væri að ræða.
Niðurstaða Neytendastofu var sú að notkun Alex Airport Hotel á auðkenninu BRÚIN væri til þess fallin að valda hættu á ruglingi hjá neytendum og var Alex Airport Hotel því bönnuð notkun auðkennisins BRÚIN í starfsemi sinni, hvort heldur sem eitt og sér eða samsett með enskri þýðingu auðkennisins, the bridge. Það var hins vegar mat Neytendastofu að notkun auðkennis veitingastaðar Alex, THE BRIDGE, eitt og sér valdi ekki ruglingshættu.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.