Fara yfir á efnisvæði

Rekstrarvörur innkalla KN95/FFP2 andlitsgrímur, vörunúmer 10KN95.

26.03.2021

Fréttamynd

Neytendastofu barst tilkynning frá Rekstrarvörum um innköllun á KN95/FFP2 andlitsgrímum, vörunúmer 10KN95, sem seldar voru í 10 stykkja pakkningum, þar sem þær stóðust ekki prófanir. Andlitsgrímurnar voru seldar sem CE merktar persónuhlífar af gerðinni FFP2.

Neytendastofa sendi nokkur eintök af umræddum grímum til prófunar hjá löggildri prófunarstofu innan Evrópu sem hluti af samstarfsverkefni eftirlitsstjórnvalda á sviði vöruöryggis innan Evrópu. Andlitsgrímur sem eru framleiddar sem persónuhlífar þurfa að uppfylla ákveðnar lágmarkskröfur sem þessar grímur gerðu ekki. Samkvæmt niðurstöðum prófunar falla grímurnar ekki nægilega vel að andliti notenda og myndast þar af leiðandi of mikið skilrúm á milli andlits og grímu. Jafnframt var gegnumflæði í gegnum efni grímunnar prófað, en í tilviki FFP2 persónuhlífa má gegnumflæði úðaefnis vera innan við 6%. Prófun á grímunum leiddi hins vegar í ljós að gegnumflæðið var langt yfir leyfileg mörk. Andlitsgrímurnar veita því neytendum falskt öryggi.

Eftir að Rekstrarvörum voru kynntar niðurstöður prófunarinnar ákvað fyrirtækið að hætta sölu strax á framangreindum andlitshlífum og innkalla þær af markaði. Í tilkynningu frá seljanda hafa um 30 pk. verið seldir á þessu ári.

Neytendastofa bendir þeim sem eiga slíkar grímur að hætta notkun hennar strax og skila þeim til skila þeim til Rekstrarvara eða henda þeim.


TIL BAKA