Fara yfir á efnisvæði

Neytendalán á netinu – Sameiginleg úttekt aðildarríkja ESB og EES.

03.05.2021

Neytendastofa tók nýverið þátt í rannsókn á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og neytendayfirvalda í Evrópu. Rannsóknin snéri að vefsíðum sem bjóða upp á neytendalán á netinu og var niðurstaðan sú að í meira en í þriðjungi tilfella voru ófullnægjandi upplýsingar veittar neytendum.

Rannsóknin tók til 118 vefsíðna, víðsvegar um Evrópu, sem bjóða upp á neytendalán á netinu og leiddi rannsóknin í ljós að meira en þriðjungur (36%) vefsíðna brjóta í bága við neytendalög. Lykilupplýsingar eins og lánskostnaður, vextir eða upplýsingar um skyldutryggingar annað hvort vantaði eða voru óljósar. Þær aðferðir sem lánveitendur nota til að meta lánshæfi neytenda voru að sama skapi ekki skýrar og þá var ekki í öllum tilfellum upplýst um sérstök úrræði vegna COVID-19, t.d. möguleika á frestun afborgana. Rannsóknin sýndi einnig fram á að ofangreind vandamál áttu sérstaklega við þegar leitað var eftir neytendalánum í snjallsímum.

Í framhaldi rannsóknarinnar munu stofnanirnar fylgja þeim málum eftir þar sem grunur er um brot á neytendalögum ríkjanna.

Neytendastofa tók til skoðunar fimm aðila á Íslandi sem bjóða upp á neytendalán á netinu og vinnur stofnunin nú að frekari rannsókn þeirra mála. Við fyrstu skoðun vefsíðanna virðist í sumum tilvikum vanta annars vegar nægar upplýsingar um fyrirtækin og hins vegar upplýsingar um lánskostnað og vexti.

Frekari upplýsingar um úttektina og aðgerðir framkvæmdastjórnar ESB má sjá hér: https://ec.europa.eu/info/live-work-travel-eu/consumer-rights-and-complaints/enforcement-consumer-protection/sweeps_en#sweeps

TIL BAKA