Fara yfir á efnisvæði

Trendland.is sektað

19.05.2021

Neytendastofa hefur lagt stjórnvaldssekt á rekstraraðila vefsíðunnar trendland.is fyrir brot á útsölureglum.

Í kjölfar ábendinga frá neytendum um að vörur á vefsíðunni hafi ekki verið seldar á tilgreindu fyrra verði, áður en þær voru boðnar á lækkuðu verði, fór Neytendastofa fram á að sýnt væri að verðlækkunin væri raunveruleg.Fyrirtæki mega aðeins kynna útsölu eða lækkað verð ef verðlækkun er raunveruleg og að kröfu Neytendastofu þurfi fyrirtæki að geta sannað sölu á vörunum á fyrra verði. Trendland.is gat ekki lagt fram gögn eða sýnt fram á með öðrum hætti að vörurnar hafi verið seldar á hærra verði áður en verð þeirra lækkaði.

Við meðferð málsins kom jafnframt í ljós að útsala á einstökum vörum stóð lengur en í sex vikur.

Neytendastofa bannaði trendland.is að viðhafa þessa viðskiptahætti og lagði 150.000 kr. stjórnvaldssekt á fyrirtækið.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA