Fara yfir á efnisvæði

Sölu- og afhendingarbann á leikfanga kolkrabba frá BSV

07.09.2021

FréttamyndNeytendastofa hefur bannað sölu og afhendingu á leikfanginu „Reversible Octopus Plush“ sem var selt af BSV ehf. í gegnum vefsíðuna hopkaup.is. Leikfangið er í formi kolkrabba sem á að endurspegla í hvaða skapi notandi þess er. Kolkrabbinn Plush var seldur í fimm mismunandi litasamsetningum.

Í kjölfar ábendingar sem barst Neytendastofu vegna leikfangsins óskaði stofnunin eftir gögnum frá BSV sem sýndu fram á öryggi þess. Engin gögn bárust og setti stofnunin tímabundið bann við sölu og afhendingu ásamt ítrekun á beiðni um afhendingu gagna. Engin svör bárust hins vegar stofnuninni. Öllum leikföngum sem seld eru innan EES svæðisins eiga að fylgja gögn sem staðfesta að þau séu í lagi og uppfylli að minnsta kosti lágmarkskröfur um öryggi.

Í ljósi þess að engin gögn bárust var það niðurstaða Neytendastofu að umrætt leikfang væri ekki örugg vara.
Neytendastofa vill enn og aftur ítreka að það má ekki selja leikföng nema að þau séu CE merkt. Merkið þýðir að varan hafi verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og stenst allar prófanir ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar séu í lagi má setja CE merkið á vöruna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA