Fara yfir á efnisvæði

Innköllun og sölubann á leikföngum hjá Eyrnes

09.09.2021

FréttamyndNeytendastofa hefur fyrirskipað innköllun og bannað sölu og afhendingu á tjaldhúsi fyrir börn og ungbarnaleikteppi með píanói sem voru seld hjá Hópkaup.is. Eyrnes ehf. er innflytjandi varanna. Tjaldhúsið er samsett úr ýmsum smáum hlutum ásamt stórri ábreiðu sem börnin byggja sér hús úr. Ungbarna leikteppið er hins vegar útbúið rafhlöðuknúnu píanói með áföstum ramma og hangandi munum.

Neytendastofa fékk ábendingu um að verið væri að selja leikföng sem gætu verið hættuleg fyrir börn þar sem þau væru ekki CE merkt. Í kjölfarið óskaði stofnunin eftir gögnum frá Eyrnes sem gætu staðfest að leikföngin væru örugg.

Gögn sem stofnunin fékk afhent frá Eyrnes reyndust ófullnægjandi. Þá skorti jafnframt á upplýsingagjöf um framleiðanda leikfanganna á eða með leikföngunum. Taldi stofnunin að Eyrnes hafi ekki sýnt fram á að leikföngin uppfylltu lágmarkskröfur um öryggi sem leikföng þurfa að uppfylla svo heimilt sé að markaðssetja þau hér á landi. Strangar kröfur eru gerðar til hönnunar og framleiðslu leikfanga fyrir börn og þá sérstaklega fyrir börn yngri en 3 ára til dæmis hvort smáir munir gætu valdið köfnunarhættu, hvort ákveðnar einingar séu brothættar, aðgengi að rafhlöðum eða hvort auðvelt sé að klemmast á milli eininga.

Í ljósi framangreinds taldi Neytendastofa nauðsynlegt að banna alla sölu og afhendingu leikfanganna, og að nauðsynlegt væri að innkalla vörurnar af markaði vegna áhættuþátta í garð ungra barna.

Neytendastofa skorar á alla þá sem keypt hafa umrædd leikföng að hætta notkun þeirra og skila þeim til Eyrnes gegn endurgreiðslu eða að farga þeim.

Neytendastofa vill ítreka að það má ekki selja leikföng nema að þau séu CE merkt. Merkið þýðir að varan hafi verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og stenst allar prófanir ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar séu í lagi má setja CE merkið á vöruna.

Ákvörðunina má lesa hér

TIL BAKA