Fara yfir á efnisvæði

Innköllun og bann við sölu á Smartmi andlitsgrímu hjá Tunglskini

04.10.2021

FréttamyndNeytendastofa hefur fyrirskipað innköllun og bannað sölu og afhendingu á andlitsgrímunni “Smartmi”, frá framleiðandanum Xiaomi, sem seld var í verslun Tunglskins ehf. og á vefsíðu félagsins, tunglskin.is.

Neytendastofu barst ábending um að Tunglskin seldi andlitsgrímu sem væri markaðssett sem persónuhlíf án þess að uppfylla skilyrði um öryggi persónuhlífa og án CE-merkis. Hafði gríman varið markaðssett sem öndunarfærahlíf í FFP2 flokki. Í kjölfarið óskaði stofnunin eftir afhendingu gagna sem myndu staðfesta öryggi grímunnar.

Þau gögn sem bárust stofnuninni reyndust ófullnægjandi. Andlitsgríman reyndist ekki hafa farið í gegnum það ítarlega samræmismatsferli sem FFP2 öndunarfærahlífar þurfa að fara í gegnum áður en þær eru settar á markað. Á grundvelli þess og þar sem andlitsgríman var án CE-merkis, var það niðurstaða Neytendastofu að andlitsgríman Smartmi væri ekki örugg vara. Gríman veitir neytendum falskt öryggi sé hún borin saman við virkni FFP2 öndunarfærahlífar. Taldi stofnunin því nauðsynlegt að banna alla sölu og afhendingu á grímunni, ásamt því að fyrirskipa innköllun grímunnar af markaði.

Í ljósi framangreinds vill Neytendastofa hvetja neytendur til að skila vörunni til Tunglskins gegn endurgreiðslu hennar eða að farga vörunni.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA