Fara yfir á efnisvæði

Auglýsingar Bensínlauss villandi

27.10.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Bílaumboðinu Öskju ehf. vegna auglýsinga Bensínlauss ehf. Í kvörtuninni kom fram að í auglýsingum Bensínlauss væri að finna rangar fullyrðingar um verð á Kia og Mercedes Benz bifreiðum sem Bensínlaus auglýsi til sölu. Auk þess voru gerðar athugasemdir við fullyrðingar um ábyrgð bifreiðanna.

Í svörum Bensínlauss kom fram að með vísun til þess að félagið bjóði bifreiðar langt undir markaðsverði sé verið að vísa til markaðar fyrir bifreiðar í heild sinni og félagið hafi ekki á nokkurn hátt borið sig saman við Öskju eða önnur bílaumboð á Íslandi. Þá vilji félagið meina að bifreiðar þær sem það bjóði til sölu og auglýstar hafi verið með vísan í sparnað upp á milljónir séu sambærilegar topp týpum bifreiða Öskju og séu jafnvel betur útbúnar en þær. Í svörum Bensínlauss kom jafnframt fram að ef bifreið sé ekki í verksmiðjuábyrgð fáist bílaábyrgð frá tryggingafyrirtæki sem sé hönnuð til að bæta framleiðslugalla á nýjum og notuðum bifreiðum sem ekki séu í ábyrgð framleiðanda.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að Bensínlaus hefði ekki lagt fram nein gögn sem stutt gætu fullyrðingar félagsins um verðhagræði. Þá var það álit Neytendastofu að þrátt fyrir að neytendum standi til boða að kaupa viðbótartryggingu hjá tryggingafélagi, sem að einhverju leyti tekur til framleiðslugalla á nýjum og notuðum bifreiðum, sé með engu móti hægt að jafna slíkri víðbótartryggingu við verksmiðju- eða framleiðsluábyrgð bifreiða.

Var það því mat Neytendastofu að fullyrðingar Bensínlauss væru ósannaðar og villandi fyrir neytendur.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA