Fara yfir á efnisvæði

Auðkennið ZOLO

17.12.2021

Neytendastofu barst kvörtun frá Zolo og dætrum ehf. þar sem kvartað var yfir notkun City Bikes ehf. á auðkenninu og vörumerkinu ZOLO. Í kvörtuninni er rakið að Zolo og dætur telji notkun City Bikes á auðkenninu villandi, brjóta gegn vörumerkjarétti þess og sé til þess fallin að neytendur ruglist á fyrirtækjunum. City Bikes hafnaði framangreindu og benti á að félögin væru ekki í samkeppni og starfsemi þeirra ótengd.

Neytendastofa taldi nauðsynlegt að horfa til og styðjast við heildarmat á því hvort hætta væri á að neytendur rugluðust á fyrirtækjunum vegna líkinda auðkennanna. Í ákvörðuninni er um það fjallað að annars vegar sé um að ræða verslun og netverslunina ilmoliulampar.is með vöruframboð yfir 200 gerða af ilmolíum og ilmkjarnaolíum, ásamt fjölda tegunda ilmolíulampa og hins vegar leiga og sala á rafmagnshlaupahjólum. Starfsemin væri að mati Neytendastofu ólík sem og framboð á vörum og þeirri þjónustu sem fyrirtækin veita viðskiptavinum sínum. Þá væru myndmerki fyrirtækjanna talsvert ólík sem og firmaheiti þeirra. Heildarmat á útliti auðkennanna, notkun þeirra og vöruframboði sem og markhópi leiddi til þeirrar niðurstöðu stofnunarinnar að þrátt fyrir notkun á sama heitinu „ZOLO“ í einhverri mynd þá væri ekki hætta á ruglingi.

Niðurstaða Neytendastofu var sú að ekki væri ástæða til frekari aðgerða í málinu

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA