Fara yfir á efnisvæði

Frávísun mála – Málsmeðferð Neytendastofu

21.01.2022

Neytendastofa vísaði 11 erindum frá án eflislegrar meðferðar á árinu 2021 sem er veruleg aukning frá því sem verið hefur. Fjölgun frávísunar mála á rætur að rekja til lagabreytingar sem gerð var árið 2020 sem kveður á um að Neytendastofa ákveði hvort erindi sem berst stofnuninni gefi nægar ástæður til rannsóknar. Það þótti nauðsynlegt að gera þessa breytingu og veita Neytendastofu vítt svigrúm til að meta hvort taka beri mál til rannsóknar því þannig væri stofnuninni unnt að sinna betur því eftirlitshlutverki sem henni er falið samkvæmt lögum. Þann 17. september 2021 var einnig birt reglugerð um málsmeðferð Neytendastofu þar sem kemur fram að stofnunin geti tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði eða eftir að erindi berst en beri ekki skylda til að taka til meðferðar öll erindi sem berast stofnuninni.

Þau erindi sem Neytendastofa hefur vísað frá fjölluðu um ágreining milli lögaðila og var það álit Neytendastofu að efni málanna snertu heildarhagsmuni neytenda með takmörkuðum hætti. Fjögur fyrirtæki kærðu frávísunina til áfrýjunarnefndar sem hefur staðfest frávísun í þremur málum en eitt mál bíður úrlausnar nefndarinnar. Á heimasíðu Neytendastofu má finna alla úrskurði áfrýjunarnefndar.

Búast má við að þeim málum fækki sem Neytendastofa tekur til efnislegrar meðferðar þar sem ágreiningur er á milli lögaðila. Það er þó ekki útilokað að stofnunin fjalli um slík mál ef efni þeirra hafa mikla þýðingu fyrir neytendur eða eru líkleg til að hafa áhrif á heildarhagsmuni neytenda.

Lagabreytingin hefur engin áhrif á möguleika neytenda og annarra aðila til að beina erindum og ábendingum til stofnunarinnar eða á það leiðbeiningarhlutverk á sviði neytendamála sem stofnunin fer með. Breytingin hefur aðallega áhrif á kvartanir og innsend erindi vegna ágreinings milli lögaðila sem varða ekki heildarhagsmuni neytenda. Í þannig málum eru iðulega önnur úrræði fyrir hendi, t.d. dómstólar.

TIL BAKA