Fara yfir á efnisvæði

Viðskiptahættir Stóru bílasölunnar ehf.

25.01.2022

Neytendastofu barst ábending yfir auglýsingum Stóru bílasölunnar ehf. um að í auglýsingum félagsins kæmu fram rangar fullyrðingar um þá bíla sem félagið selji. Málið varðaði annars vegar skort á lögboðnum upplýsingum um auglýst bílalán og hins vegar fullyrðingar félagsins „ódýrasti smájeppinn fyrir íslenskar aðstæður“ og „allt að 100% lánamöguleiki“ ásamt verðsamanburð við ótilgreint listaverð hjá umboði.

Í svörum Stóru bílasölunnar kom fram að með auglýsingunni sé félagið ekki að bjóða upp á þjónustu á sviði neytendalána. Þá sé í auglýsingunni einfaldlega bent á möguleikann að fá allt að 100% lán, en slík lán séu fyrir hendi. Fullyrðing um ódýrasta jeppann fyrir íslenskar aðstæður sé í samræmi við raunveruleikann eins og félagið hafi kannað og þá auglýsi umboð sambærilega bíla og þá sem auglýstir séu af Stóru bílasölunni á kr. 4.450.000, líkt og fram komi í auglýsingu félagsins.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að vísun Stóru bílasölunnar í kostnað neytenda af bílaláni í auglýsingunni, þ.e. hver mánaðarlega afborgun hans væri af láninu, valdi því að félaginu sé skylt að upplýsa um aðra þætti lánsins, t.d. vexti, árlega hlutfallstölu kostnaðar o.fl.

Neytendastofa taldi ekki tilefni til frekari aðgerða vegna fullyrðingar um ódýrasta smájeppann fyrir íslenskar aðstæður en taldi hins vegar að fullyrðing um 100% lán væri villandi. Samsett fjármögnun með bílaláni eða bílasamningi og kortaláni geti ekki talist 100% lánamöguleiki þar sem lánin væru háð mismunandi kjörum og skilyrðum.

Að endingu taldi Neytendastofa verðsamanburð á bílum til sölu hjá Stóru bílasölunni við ótilgreint listaverð vera villandi. Þrátt fyrir að auglýstur bíll Stóru bílasölunnar gæti talist staðgönguvara bíls sömu tegundar frá umboðsaðila væri samanburðurinn villandi þar sem útbúnaður og aukahlutir bílanna væri frábrugðinn að verulegu leyti sem hefði áhrif á verð bílanna.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.


TIL BAKA