Fara yfir á efnisvæði

Graníthöllin sektuð

01.07.2022

Neytendastofu barst ábending um að Graníthöllinn ehf. hafi auglýst verðlækkanir í lengri tíma en sex vikur og að ákveðnar vörur hafi aldrei verið seldar á því fyrra verði sem tilgreint var sem fyrra verð. Í kjölfar ábendingarinnar sendi stofnunin bréf til félagsins þar sem óskað var skýringa og athugasemda.

Neytendastofu bárust reikningar frá Graníthöllinni fyrir hluta þeirra legsteina sem beiðni stofnunarinnar laut að. Sýndu þeir ýmist sölu fyrir eða eftir útsölu. Þá taldi félagið að rétt væri að miða við 42 virka daga í stað 6 vikna þar sem sum fyrirtæki störfuðu ekki um helgar. Var því haldið fram að um raunverulega verðlækkun hafi verið að ræða.

Að mati Neytendastofu voru ekki nægileg gögn til staðar sem sýndu fram á að félagið hafi auglýst verðlækkun yfir lengra tímabil en sex vikur. Stofnunin tók þó fram að reglurnar væru skýrar um að miða ætti við sex vikna tímabil en ekki 42 virka daga.

Þá var það mat stofnunarinnar að Graníthöllinni hafi ekki tekist að sýna fram á að átta af níu legsteinum, sem beiðni stofnunarinnar laut að, hefðu áður verið seldir á tilgreindu fyrra verði. Taldi stofnunin rétt að banna félaginu að viðhafa umrædda viðskiptahætti og sektaði félagið um 300.000 kr.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA