Fara yfir á efnisvæði

Shopify gerir ráðstafanir til að koma í veg fyrir brot á réttindum neytenda

10.10.2022

Í kjölfar viðræðna á milli Shopify og neytendayfirvalda í Evrópu hefur Shopify samþykkt ákveðnar skuldbindingar til þess að koma í veg fyrir brot á réttindum neytenda.. Aðgerðirnar eru liður í tilkomu nýrrar reglugerðar um rafræna þjónustu (Digital Services Act) og fólu m.a. í sér að koma fyrir hröðu og skilvirku tilkynningarferli fyrir bæði neytendur og neytendayfirvöld. Samþykkti Shopify jafnframt að breyta sniðmátum sínum þannig að seljendur eru neyddir til að veita upplýsingar um sig sjálfan í vefverslun sinni. Er þetta í raun nýstárleg nálgun á neytendavernd sem er gjarnan kölluð „framfylgni með hönnun“ (e. compliance by design).

Shopify er fyrirtæki sem gerir söluaðilum kleift að setja upp vefverslun á vettvangi sínum með auðveldum hætti, ásamt því að bjóða upp á vefhýsingu og svokallað drop-shipping. Er Shopify meðal leiðandi fyrirtækja á þeim markaði. Neytendyfirvöld víðsvegar um Evrópu hafa fengið fjölda kvartana um að vefverslanir sem hýstar eru af Shopify séu ítrekað að viðhafa háttsemi sem brýtur gegn neytendalöggjöf, t.a.m. fölsk tilboð, rangar upplýsingar um vöruframboð, falskar vöru, vörur berast ekki eða berast seint, o.s.frv. Virtist framangreint færast í aukanna á meðan Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst enda færðu seljendur starfsemi sína í miklum mæli yfir á Internetið á meðan kauphegðun neytenda fylgdi sama mynstri. Voru svindlarar ekki lengi að misnota þessar nýju aðstæður. Þessu til viðbótar stunduðu margar Drop-shipping vefverslanir á Shopify það að tilkynna viðskiptavinum ekki nægilega um sendingartíma eða viðbótargjöld sem skapast vegna greiðslu tolla.

Skuldbindingar Shopify eru í grófum dráttum eftirfarandi:

• Setja upp hratt og skilvirkt tilkynningarkerfi fyrir neytendayfirvöld gegn seljendum sem viðhafa ólögmæta viðskiptahætti í gegnum vefverslarnir sem hýstar eru af Shopify.
• Vera með skýrari og nákvæmari leiðbeiningar í tengslum við neytendalöggjöf innan Evrópu fyrir þá sem hyggjast setja upp vefverslun hjá Shopify.
• Koma fyrir sérstökum dálkum í sniðmátum sínum fyrir seljendur þar sem þeim er gert að setja upplýsingar um fyrirtækið og hvernig hægt sé að hafa samband. Gildir þetta líka um þann hluta sem sér um að útbúa skilmála fyrir seljendur.
• Að veita neytendayfirvöldum fyrirtækjaupplýsingar um þá seljendur sem eru innan Evrópusambandsins (ESB) og/eða Evrópska efnahagssvæðisins (EES).
Auk framangreinds hafa neytendayfirvöld jafnframt samþykkt að bæta samstarf sitt við Kanadísku Neytendastofuna gagnvart seljendum innan Shopify sem eru ekki með aðetur innan ESB og eða EES.

TIL BAKA