Að velja fasteignalán
Neytendastofa vill í tengslum við umræðu síðustu daga um hækkun vaxta og greiðslubyrði fasteignalána vekja athygli á því að neytendur eiga að fá ýmsar upplýsingar áður en samningur um fasteignalán er gerður. Tilgangurinn með upplýsingunum er að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um það hvaða lánsform hentar þeim best auk þess að vita hvernig lánið og greiðslubyrði þess getur breyst á lánstímanum.
Lánveitendum ber að hafa lánareiknivélar á vefsíðum sínum sem geta verið mikilvægt tól fyrir neytendur til að bera saman bæði ólík lán eins lánveitanda og sambærileg lán margra lánveitenda. Í reiknivélunum er einnig hægt að sjá hvernig breytingar á forsendum hafa áhrif á ólík lánsform.
Þá má nefna að lánveitandi skal veita neytanda ítarlegar upplýsingar um lánið sem hann hyggst taka á stöðluðu eyðublaði. Þar eiga t.d. að koma fram hverjir vextir eru, hvort þeir eru fastir eða breytilegir og, ef við á, hvernig vextir komi til með að breytast. Í eyðublaðinu eiga jafnframt að vera upplýsingar um aðra kostnaðarliði eins og uppgreiðslugjald og vanskilakostnað.
Til viðbótar við staðlað eyðublað á lánveitandi að veita neytanda almennar upplýsingar frá Neytendastofu um mismunandi áhrif breytinga á vöxtum og verðbótum á höfuðstól og greiðslubyrði lána eftir því hvort lánið er verðtryggt eða óverðtryggt.
Að lokum á lánveitandi eða lánamiðlari að útskýra samning um fasteignalán fyrir neytanda.
Ef lánveitendur standa rétt að málum eiga neytendur því að vera nokkuð vel upplýstir um mismunandi form lána, greiðsluferil þeirra og áhrif vaxta- eða verðlagsbreytinga á þau. Neytendur ættu því að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvaða lánsform hentar þeim best m.a. út frá því hvernig breytingar á markaði hafa áhrif á lánið.
Hér má finna almennar upplýsingar, útgefnar af Neytendastofu.