Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar í auglýsingum Verna

09.12.2022

Neytendastofu barst ábending vegna auglýsinga og markaðssetningar tryggingafélagsins Verna MGA ehf. á samfélagsmiðlum þar sem auglýstur var allt að 120.000 kr. sparnaður með því að færa sig yfir til Verna. Varðaði ábendingin fullyrðingarnar „Teitur lækkaði tryggingarnar sínar um 120 þúsund krónur á ári með því að færa sig yfir til Verna“, „Heba lækkaði tryggingarnar sínar um 54 þúsund krónur á ári með því að færa sig yfir til Verna“ og „Svala lækkaði tryggingarnar sínar um 74.500 krónur á ári með því að færa sig yfir til Verna“. Fór Netyendastofa fram á að félagið sannaði fullyrðingarnar.

Í svörum Verna kom fram að við þróun smáforritsins hefði verið notast við erkitýpur með
tilteknar þarfir og einkenni fyrir tiltekinn markhóp kvenna og karla á tilteknum stað í lífinu. Fyrir birtingu auglýsinganna hafi verið haft samband við raunverulega einstaklinga sem pössuðu við þessar skilgreindu erkitýpur og kannað hvort og hve mikið viðkomandi hefðu lækkað í verðum. Upplýsingar um fjárhæð sparnaðar voru tilteknar en engar upplýsingar um hvernig upphæðirnar voru tilkomnar eða á hvaða grundvelli sparnaðurinn miðaðist við.

Neytendastofa óskaði eftir frekari skýringum varðandi hinn auglýsta sparnað á iðgjöldum s.s. ítarlegri upplýsingar um þennan mögulega sparnað á iðgjöldum, hvaða tryggingaliði verið væri að miða við og hvernig þessi heildarsparnaður væri fundinn út, lið fyrir lið. Ekkert svar barst.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að m.v. framlögð gögn félagsins væri óljóst hvernig hinn auglýsti sparnaður væri tilkominn eða hvort hann væri raunverulegur og ekki hefði tekist að sanna fullyrðingarnar. Fullyrðingarnar væru afdráttarlausar og því líklegt að neytendur leggi þann skilning í auglýsingarnar að Verna bjóði í öllum tilvikum upp á sambærilegar en ódýrari tryggingar en önnur tryggingafélög. Því taldi stofnunin að með birtingu umræddra fullyrðinga hafi félagið jafnframt veitt villandi upplýsingar um helstu einkenni og verð veittrar þjónustu félagsins.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA