Verðmerkingar í leigubifreiðum
Neytendastofa vekur athygli á því að þann 1. apríl taka gildi ný lög um leigubifreiðaakstur. Þar er meðal annars fjallað um verðupplýsingar og Neytendastofu falið eftirlit með þeim ákvæðum.
Samkvæmt lögunum eiga neytendur að fá upplýsingar um verð áður en ferð er farin, hvort sem samið hefur verið um heildarverð fyrirfram eða ef greitt er eftir gjaldmæli að ferð lokinni. Þeir sem bjóða neytendum að bóka leigubifreið í gegnum vefsíðu eða smáforrit skulu hafa verðupplýsingar aðgengilegar þar. Ef þjónustan er veitt án fyrirfram pöntunar eiga neytendur að geta séð verð áður en þeir setjast inn í bílinn. Verðskrá sem er sýnileg fyrir utan bílinn skal a.m.k. hafa upplýsingar um upphafsgjald, kílómetragjald og mínútugjald. Inni í bifreiðinni þarf að vera heildarverðskrá.
Í reglunum er ekki útfært hvar verðskráin á að vera og því getur seljandi útfært það sjálfur. Skilyrði er að verðskráin sé skýr, auðlæsileg og neytendur hafi auðvelt aðgengi að henni.