Fara yfir á efnisvæði

Myrk mynstur hjá vefverslunum

04.04.2023

Neytendastofa tók þátt í samræmdri skoðun neytendayfirvalda í Evrópu um notkun á myrkum mynstrum (e. Dark Patterns) hjá vefverslunum. Skoðunin var gerð af 23 stofnunum og tók til 399 vefverslana hjá seljendum af ýmsum vörum, allt frá vefnaðarvörum til raftækja.

Skoðunin gekk út á að bera kennsl á þær síður sem nýta sér myrk mynstur í þeim tilgangi að leiða neytendur í óhagstæð kaup. Skoðað var hvort á síðunum væri að finna: falska niðurteljara á tilboðum; vefuppsetningar hannaðar til að leiða neytendur í kaup, áskriftir eða aðra möguleika sem hann hefði ekki valið sjálfur; eða huldar upplýsingar. Skoðunin leiddi í ljós að 148 af þeim vefverslunum sem voru skoðaðar innihéldu að minnsta kosti eitt af þessum þremur myrku mynstrum.

• 42 vefsíður nýttu sér falska niðurteljara sem þrýstir á neytendur að kaupa vöru innan ákveðins tímaramma.
• 54 vefsíður beindu neytendum að ákveðnum valkosti svo sem áskrift, dýrari vöru eða dýrari sendingakosti með villandi hönnun eða orðum.
• 70 vefsíður voru að hylja mikilvægar upplýsingar eða gera þær minna áberandi fyrir neytendum. Þetta gat meðal annars átt við um upplýsingar sem tengdust sendingarkostnaði, innihaldslýsingu vöru eða möguleika um ódýrari kost. 23 af vefsíðunum huldu upplýsingar með það að markmiði að neytandi skráðist í einhvers konar áskrift þegar hann ætli sér að kaupa vöru í eitt sinn.
• Skoðunin tók einnig til 102 snjallsímaforrita frá vefsíðunum sem skoðaðar voru. 27 þeirra nýttu sér að minnsta kosti einn af þessum þremur flokkum myrkra mynstra.

Neytendastofa skoðaði sjö vefsíður íslenskra seljenda með útivistarfatnað og fundust þar engin merki um myrk mynstur.

Yfirvöld í hverju ríki munu hafa samband við þá söluaðila sem á við og ef þörf er á munu þau grípa til aðgerða.

Lesa má nánar um skoðunina hér:
https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/ip_23_418

TIL BAKA