Fara yfir á efnisvæði

Villandi fullyrðing Origo

21.04.2023

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Origo hf. vegna fullyrðingar í auglýsingum félagsins um að Bose QuietComfort Earbuds II væri með „besta noise cancellation í heimi“. Við meðferð málsins fór Neytendastofa fram á að félagið sannaði fullyrðinguna. Voru lögð fram gögn sem sýndu samanburð á „noise cancellation“ eiginleika heyrnatólanna og fjögurra helstu markaðsleyðandi fyrirtækja á markaði.

Stofnunin taldi rannsóknina ekki sanna eins afdráttarlausa fullyrðingu og um ræðir í málinu, enda fullyrt að enginn í heiminum sé með betra „noise cancellation“. Origo hafi þannig ekki tekist að sanna fullyrðinguna. Neytendastofa hefur gert ríkar kröfur til sönnunar á fullyrðingum með efsta stig lýsingarorðs. Því afdráttarlausari sem fullyrðing er, því meiri eru sönnunarkröfurnar.

Taldi Neytendastofa jafnframt að almenn tilvísun félagsins til þess að fullyrðingin væri grundvölluð á rannsókn löggilts rannsóknaraðila vera til þess fallin að ýta undir villandi eiginleika fullyrðingarinnar. Með tilvísuninni væri gefið í skyn að löggiltur úttektaraðili hafi staðfest að heyrnatólin séu með besta „noise cancellation“ sem til er í heiminum, þrátt fyrir að hafa aðeins borið saman heyrnatól Bose og fjögurra annarra keppinauta.

Taldi Neytendastofa þ.a.l. að um brot væri að ræða og viðskiptahættir félagsins hafi verið óréttmætir. Bannaði stofnunin Origo að viðhafa umrædda viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA