Fara yfir á efnisvæði

Villandi auglýsingar ÓB um afslátt af eldsneyti

15.05.2023

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun gagnvart Olís ehf., vegna auglýsinga um afslátt á völdum sjálfsafgreiðslustöðvum ÓB. Auglýstur var afsláttur af eldsneyti, sem tengdist úrslitum íslenska landsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótinu sem fram fór í Svíþjóð, án þess að tekið var fram að afslátturinn gilti ekki á öllum sjálfsafgreiðslustöðvum ÓB. Jafnframt var auglýstur afsláttur á vefsíðu félagsins þar sem tilkynnt var með stjörnumerktum texta með smáu letri að afslátturinn gilti ekki á þeim sjálfsafgreiðslustöðvum þar sem í gildi væri lægsta verð ÓB.

Í svörum félagsins kom fram að ef smellt hafi verið á auglýsingarnar hafi birst borði þar sem kom fram að viðkomandi afsláttur gilti ekki á tilteknum stöðvum ÓB. Þá hafi skilaboð verið send á viðskiptamenn félagsins þar sem þetta kom fram. Því telji félagið að auglýsingarnar hafi ekki verið til þess fallnar að blekkja neytendur.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að með því að taka ekki fram í öllum auglýsingum að afslátturinn væri ekki í boði á ákveðnum sölustöðum hafi Olís viðhaft villandi viðskiptahætti. Þá komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um takmarkanir á afsláttum hafi ekki verið komið á framfæri með nægjanlega skýrum og greinargóðum hætti.

Bannaði stofnunin Olís að viðhafa umrædda viðskiptahætti.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA