Birta CBD ehf. sektað vegna fullyrðinga á vefsíðunni birtacbd.is
Neytendastofu hefur tekið ákvörðun vegna fullyrðinga um virkni snyrtivara á vefsíðu Birtu CBD ásamt framsetningu auglýsinga og kynninga á vefsíðunni.
Í svörum Birtu CBD kom í fyrstu fram að umfjöllunin sem gerð væri athugasemd við ætti við um tiltekin lyf sem innihalda CBD. Allar fullyrðingar væri hægt að styðja með vísindalegum gögnum og ekki væri verið að samsama virkni lyfjanna við vörur félagsins eða að nota skuli CBD í stað lyfja við alvarlegum sjúkdómum. Einungis hafi verið um upplýsingagjöf að ræða og fræðslutexta þar sem sjúklingum væri bent á lyf sem gætu hjálpað og virkni þeirra.
Í síðari svörum félagsins kom fram að félagið hefði fjarlægt þær fullyrðingar sem Neytendastofa leitaði skýringa á. Þótt það hafi litið svo á að um fræðslutexta hafi verið að ræða, til að kynna fólki almennt fyrir CBD og hvernig notkun þess hafi þróast á Íslandi, þá virði félagið sjónarmið stofnunarinnar og ætlunin hafi ekki verið að villa um fyrir neytendum.
Niðurstaða Neytendastofu var sú að með umfjölluninni sköpuðust hugrenningartengsl milli lyfjanna og þeirra vara sem Birta CBD selur. Fullyrðingarnar veittu rangar upplýsingar um helstu einkenni þeirra og séu til þess fallnar að valda því að hinn almenni neytandi sem fullyrðingarnar beinast að taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi annars ekki taka og væru líklegar til að raska fjárhagslegri hegðun þeirra. Þá feli fullyrðingarnar í sér brot gegn reglugerð um viðskiptahætti sem teljast undir öllum kringumstæðum óréttmætir. Stofnunin sektaði því félagið um 100.000 kr.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.