Fara yfir á efnisvæði

Ekki tilefni til athugasemda vegna heitanna Fríhöfn og Duty Free

05.07.2023

Með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 13/2021 var ákvörðun Neytendastofu um notkun Fríhafnarinnar á heitunum „duty Free“ og „fríhöfn“ felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar. Niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála byggði á því að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því að því er varði upplýsingagjöf til neytenda um opinberar álögur á vörur úr verslunum fyrirtækisins.

Neytendastofa tók málið því til nýrrar meðferðar. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Fríhöfnin hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Neytendur séu upplýstir um áfengis- og tóbaksgjald á vefsíðu félagsins og þá hafi uppsetningu á vefsíðu Fríhafnarinnar verið breytt á þann veg að skilið sé á milli komu- og brottfararverslunar. Uppsetningin endurspegli nú að hluti áfengis- og tóbaksgjalds sé lagt við vöruverð í komuverslun félagsins. Þá verði ekki litið svo á að í umræddum staðhæfingum um að verslanir Fríhafnarinnar séu “duty free” og “fríhöfn” felist að engar opinberar álögur séu lagðar á sölustarfsemi Fríhafnarinnar enda ljóst að orðið „fríhöfn“ eitt og sér sé ekki svo skilyrðislaus staðhæfing. Ekki sé að finna í lögum eða reglugerðum ríkari skyldur á Fríhöfnina til þess að upplýsa um álögur eða gjöld umfram aðrar verslanir. Ekki sé heldur lagaskylda til að gera grein fyrir opinberum gjöldum samhliða söluverði að öðru leyti en því að skylt sé að gefa upp endanlegt verð sem inniheldur öll opinber gjöld. Þá sé áfengis- og tóbaksgjald ekki tollur og þar með séu verslanir Fríhafnarinnar „tollfrjálsar“ í skilningi þess orðs. Að endingu sé það álit Neytendastofu að hinn almenni neytandi leggi þann skilning í orðin „duty free“ og „fríhöfn“ að í þannig verslunum sé vöruverð almennt lægra en gengur og gerist en séu ekki endilega óháðar öllum álögum eða gjöldum.

Var það því mat Neytendastofu að ekki væri tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar í málinu.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér. 

TIL BAKA