Duldar auglýsingar Blush
Neytendastofa hefur tekið ákvarðanir gagnvart Blush, Pipar auglýsingastofu og Birnu Rún Eiríksdóttur vegna dulinna auglýsinga. Um var að ræða fasteignaauglýsingu fyrirsvarsmanns Blush þar sem vörum Blush hafði verið stillt upp. Umfjöllun um fasteignaauglýsinguna sem dreift var á Instagram og Tiktok og aðrar umfjallanir um vörur Blush á Instagram og Tiktok sem ekki voru merktar sem auglýsing.
Í svörum Blush kom fram að samstarf Birnu og Blush hafi hafist í júlí 2022 en Birna hafi hvorki fengið greitt í peningum né vörum fyrir umrætt myndband og ekki hafi verið óskað eftir auglýsingu frá henni. Í svörum Pipar auglýsingastofu kom fram að félagið hafi verið í samstarfi við Blush við gerð auglýsingaherferðar til kynningar á vörum Blush og hafi m.a. nýtt tækifærið að fyrirsvarsmaður Blush væri að selja fasteign og „falið“ vörur frá Blush inni á fasteignaljósmyndunum til að sjá hvort fólk tæki eftir þessum hlutum inni á myndunum. Félagið hafi hins vegar ekki verið í neinu samstarfi eða samskiptum við Birnu við gerð umfjallana um vörur Blush. Þá kom fram í svörum Birnu að hún hafi gert umrætt Tiktok myndband eftir að fyrirsvarsmaður Blush hafi bent henni á fasteignaauglýsinguna og sagt henni að þar leynist skemmtilegir hlutir sem gæti verið fyndið grín á Tiktok. Þá kom fram í svörum hennar að hún hafi greinilega ekki kynnt sér reglur um auglýsingar á samfélagsmiðlum nægilega vel en muni bæta úr því.
Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að neytendur hafi verið blekktir með fasteignaauglýsingunni enda engar merkingar eða nokkuð annað sem gaf til kynna að um annað en hefðbundna fasteignaauglýsingu væri að ræða. Uppstilling vara Blush í fasteignaauglýsingunni var að mati Neytendastofu gerð í auglýsinga- og viðskiptalegum tilgangi. Markmiðið hafi verið að vekja athygli neytenda á vörum Blush, og var fasteignaauglýsingin sjálf í raun hluti af auglýsingaherferð fyrir Blush sem gerð var með aðkomu Pipar auglýsingastofu. Með því hafi bæði Blush og Pipar auglýsingastofa brotið gegn ákvæðum laga með villandi viðskiptaháttum og notkun dulinna auglýsinga.
Þá komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að umfjöllun Birnu um fasteignaauglýsinguna hafi verið dulin auglýsing. Aðrar umfjallanir hennar um vörur Blush á Instagram og Tiktok voru einnig duldar auglýsingar enda voru myndböndin ekki merkt sem auglýsing. Neytendastofa komst einnig að þeirri niðurstöðu að aðkoma Blush að umræddum auglýsingum hafi verið sjálfstætt brot. Fyrirsvarsmaður Blush hafi leiðbeint um gerð og hvatt til þess að umræddar auglýsingar væru gerðar.
Neytendastofa bannaði Blush, Pipar auglýsingastofu og Birnu Rún Eiríksdóttur að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti að viðlögðum sektum.
Þá taldi stofnunin hæfilegt að sekta Blush um 200.000 kr. vegna brota sinna.
Ákvarðanirnar má lesa í heild sinni hér.