Ólögmætir skilmálar Sante.is
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um brot Santewines SAS, rekstraraðila vefsíðunnar sante.is, vegna ólögmætra skilmála um rétt neytenda til að falla frá samningi. Í skilmálum félagsins kom fram að ekki væri hægt að skila vörum gegn endurgreiðslu nema samkvæmt sérstöku samkomulagi þegar um væri að ræða kaup í miklu magni fyrir veislur eða þess háttar.
Í ákvörðuninni komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að félagið hafi veitt neytendum rangar upplýsingar um rétt þeirra til að falla frá samningi í skilmálum sínum. Var það mat stofnunarinnar að vöruúrval félagsins væri ekki þess eðlis að heimilt væri að takmarka rétt neytenda til að skila vöru með eins almennum hætti og gert var, þrátt fyrir að undanþága gæti átt við um einstaka vörur.
Sante hafi því, með því að veita neytendum rangar upplýsingar um rétt þeirra til að falla frá samningi haft áhrif á ákvörðun þeirra um að eiga viðskipti og brotið gegn ákvæðum laga um neytendasamninga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Benti stofnunin sérstaklega á að skortur á upplýsingum um rétt til að falla frá samningi leiðir til þess að réttur neytenda til að falla frá samningi framlengist úr 14 dögum í 12 mánuði. Við þær aðstæður ber jafnframt ekki að taka mið af verðrýrnun á verðgildi vörunnar hafi seljandi ekki bætt úr upplýsingagjöf til neytenda.