Fara yfir á efnisvæði

Hagkaup sektað vegna Tax-free auglýsinga

02.11.2023

Neytendastofa hefur sektað Hagkaup vegna auglýsinga um Tax-free afslætti félagsins. Var annars vegar um að ræða auglýsingu þar sem prósentuhlutfall verðlækkunarinnar var ekki kynnt neytendum og hins vegar auglýsingar þar sem prósentuhlutfall verðlækkunar var ekki kynnt neytendum með nægilega skýrum hætti.

Hagkaup birti auglýsingu á Facebook síðu sinni og á fréttasíðunni mbl.is þar sem afsláttarprósenta var ekki tekin fram. Félagið veitti neytendum því ekki upplýsingar sem skylt er að veita lögum samkvæmt.

Þá taldi Neytendastofa að í auglýsingu sem birtist m.a. á samfélagsmiðlum Hagkaups hafi upplýsingarnar ekki verið birtar með nægilega skýrum hætti. Afsláttarprósentan var vinstra megin á myndinni í agnarsmáu letri og á hlið, þrátt fyrir að annar texti í auglýsingunni hafi verið töluvert stærri og skýrari.

Í ákvörðuninni er um það fjallað að neytendur eiga ekki að þurfa að leita að upplýsingum um afsláttarprósentu eða að stækka auglýsinguna til að sjá prósentuna. Hagkaup hafi þ.a.l. leynt neytendur upplýsingum sem skipta þá almennt máli til þess að hafa áhrif á ákvörðun þeirra um að eiga viðskipti.

Sektaði stofnunin Hagkaup um 850.000 kr., m.a. út af fyrri sektarákvörðunum fyrir sambærileg brot.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA