Fara yfir á efnisvæði

Íslenskuátak Neytendastofu

21.11.2023

FréttamyndLilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Neytendastofa undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um að ráðast í átaksverkefni sem miðar að því að auka vitund fyrirtækja og almennings um íslenskuákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Viljayfirlýsingin var undirrituð í húsakynnum Neytendastofu. Með henni lýsir stofnunin því yfir að hún muni setja mál í forgang þar sem íslenska er hlunnfarin í auglýsingum og vekja athygli á því í samvinnu við menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, skulu auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda vera á íslensku. Frá árinu 2005 hefur Neytendastofa átta sinnum tekið fyrir mál sem varða ákvæðið og hefur öllum þeim málum lokið með ábendingum stofnunarinnar til viðkomandi fyrirtækis sem lagaði auglýsingar sínar í kjölfarið.

Neytendastofa fagnar því að ráðuneytið skuli leggja áherslu á mál er varða íslenska tungu. Augljóst er að þetta málefni skiptir neytendur verulegu máli og að auglýsingar séu á íslensku, eins og lög gera ráð fyrir.

Þau mál sem stofnunin hefur tekið til meðferðar hafa flest verið á grundvelli ábendinga frá neytendum og vonast Neytendastofa til að fá sem flestar ábendingar núna í þessu átaki til að geta annars vegar gripið til aðgerða þar sem þess er þörf og hins vegar safnað tölfræðiupplýsingum í tengslum við átakið.

Hægt er að tilkynna allt auglýsingaefni sem ekki er á íslensku hér. https://rafraen.neytendastofa.is/#/nafnlausabending

Viljayfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA