Ólögmætar auglýsingar GS Búllunar á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir þær
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun vegna auglýsinga GS Verslana ehf., rekstraraðila GS Búllunar, á nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir þær. Í ákvörðuninni er fjallað um auglýsingar á samfélagsmiðlum félagsins, utan á verslun þess og á vefsíðunni gsbullan.is.
Er það niðurstaðar stofnunarinnar að félagið hafi brotið gegn auglýsingarbanni með því að birta myndir og myndbönd af nikótínvörum, rafrettum og áfyllingum fyrir þær á samfélagsmiðlum. Undir myndböndum, með hvetjandi lýsingum um vinsældir vörunnar eða verðlækkunum, voru hlekkir sem leiddu beint á umræddar vörur sem Neytendastofa taldi fela í sér ólögmæta auglýsingu á þeim. Benti stofnunin á að verslunum væri óheimilt að auglýsa sjálfar vörurnar á samfélagsmiðlum, óháð því hvort þær væru í forgrunni eða bakgrunni auglýsingarinnar.
Þá er niðurstaða stofnunarinnar að dósir framan á verslun félagsins brjóti gegn auglýsingabanni nikótínvara. Þrátt fyrir að dósirnar séu merktar sem „nikótín lausar“ sé letrið svo smátt að það sjáist varla fyrr en komið er upp að versluninni. Hins vegar sjáist greinilega nafn framleiðanda vörunnar sem býður breytt úrval af púðum með nikótíni í sambærilegum umbúðum.
Að lokum er það niðurstaða stofnunarinnar að félagið hafi brotið gegn bannákvæðinu með því að birta jákvætt hlaðin lýsingarorð um einkenni og bragð ákveðinna nikótínvara, rafretta og áfyllinga fyrir þær á vefsíðu sinni.
Bannaði Neytendastofa GS Verslunum að viðhafa framangreinda viðskiptahætti og veitti félaginu fjögurra vikna frest til að fjarlægja markaðsefnið sem fjallað er um.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.