PayPal skuldbindur sig til að breyta skilmálum til þess að uppfylla kröfur ESB um neytendavernd
Í framhaldi af viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og neytendayfirvöld hefur PayPal skuldbundið sig til að breyta skilmálum sínum, í þeim tilgangi að gera þá gagnsærri og auðskiljanlegri fyrir neytendur.
Samstarfsnet neytendayfirvalda í Evrópu (CPC), í samráði við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur átt í viðræðum við PayPal síðan í maí 2023.
CPC taldi skilmála fyrirtækisins óljósa og ósanngjarna fyrir neytendur. PayPal hefur samþykkt að taka á þeim málum sem yfirvöldin vekja athygli á og breyta skilmálum sínum til að uppfylla betur tilskipun um óréttmæta samningsskilmála. Þessar breytingar PayPal munu færa starfshætti fyrirtækisins til samræmis við kröfur neytendalöggjafar ESB.
Yfirlit yfir breytingar Paypal:
PayPal hefur samþykkt að koma af stað fjölda breytinga og skýringa á ákvæðum skilmála sinna, einkum:
• skýra hvaða ákvæði gilda um neytendur og hver gilda aðeins um fyrirtæki;
• fjarlægja ákvæði sem fela í sér að neytendur kanni hvort farið sé að lögum (t.d. orðalag eins og “to the extent permitted by law”);
• gera skýrt að neytendur eru ekki ábyrgir fyrir tjóni sem er ekki þeirra sök eða sem ekki var hægt að sjá fyrir;
• fjarlægja ákvæði sem skylda neytendur til að sannreyna upplýsingar sjálfir (svo sem að lýsa því yfir að PayPal geti ekki ábyrgst áreiðanleika upplýsinga);
• tryggja að neytendur viti að þeir geta notið góðs af innlendum lögum ef upp kemur ágreiningur;
• fjarlægja hugtök sem neytendur geta ekki skilið án útskýringa, svo sem “merchantability” eða “non-infringement”.
Þessar breytingar verða tilkynntar notendum með uppfærslu skilmála þann 21. febrúar 2024 og taka formlega gildi 28. maí 2024.
Frekari upplýsingar (á ensku)
Fréttatilkynning í heild sinni
Ósanngjarnir samningsskilmálar
Samstarfsnet neytendayfirvalda í Evrópu (CPC)
Frekari upplýsingar um aðgerðir til framfylgdar neytenda