Fara yfir á efnisvæði

Fullyrðingar Ozon ehf. um lyfjavirkni CBD, CBN og CBG snyrtivara

19.01.2024

Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um brot Ozon ehf. vegna fullyrðinga um lyfjavirkni snyrtivara sem innihalda CBD, CBN og CBG og eru seldar hjá félaginu. Málið laut að fullyrðingum sem birtar voru á Facebook síðu félagsins og vefsíðum þess, hempliving.is og gottcbd.is.

Undir rekstri málsins hélt Ozon því fram að um væri að ræða hampvörur sem innihaldi kannabínóða sem rannsóknir sýni að bæti húðheilsu einstaklinga á marga vegu og gagnis vel við verkjum sem leiði til betri svefns og einbeitingu. Á síðari stigum málsins tók félagið fram að það hefði fjarlægt allar fullyrðingar sem stofnunin hafi bent á. Tók félagið þó fram að það efni hafi allt verið undir almennum fróðleik og hvergi fullyrt um að að vörurnar lækni sjúkdóma.

Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni varanna þar sem gefið væri til kynna að vörurnar hefðu lyfjavirkni. Því taldi stofnunin fullyrðingarnar líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytenda. Viðskiptahættir félagsins væru því til þess fallnir að valda því að hinn almenni neytandi sem fullyrðingarnar beinast að taki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið.

Taldi stofnunin hæfilegt að sekta félagið um 200.000 kr. vegna brota sinna.


Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.

TIL BAKA