Fullyrðingar um virkni Lifewave vara
Neytendastofu barst ábending vegna fullyrðinga Reykjavík Marketing, rekstraraðila vefsíðunnar healthi.is, um virkni Lifewave vara.
Neytendastofa óskaði eftir sönnunum fyrir fullyrðingum sem birtar voru á vefsíðunni þar sem því var m.a. haldið fram að vörurnar minnki verki og bólgur, stuðli að betri svefn, minnki öldrunareinkenni, styrki ónæmiskerfið auk þess að minnka streitu og streitumyndun.
Rekstraraðili síðunnar sendi ekki fullnægjandi sönnunargögn fyrir fullyrðingunum en á meðan á meðferð málsins stóð var vefsíðunni healthi.is lokað.
Taldi Neytendastofa fullyrðingarnar veita rangar upplýsingar um helstu einkenni varanna sem væru líklegar til að valda því að hinn almenni neytandi tæki viðskiptaákvörðun sem hann myndi ekki annars hafa tekið. Fullyrðingarnar væru því líklegar til að raska verulega fjárhagslegri hegðun neytanda. Þá taldi Neytendastofa að með birtingu fullyrðinga um virkni Lifewave vara hafi félagið haldið því ranglega fram að vörurnar geti læknað sjúkleika eða röskun á líffærastarfsemi.
Taldi stofnunin hæfilegt að sekta félagið um 100.000 kr. vegna brota sinna.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.